top of page

Um okkur

Þrír ættliðir við leik og störf

Við erum fjölskylda af Höfuðborgarsvæðinu sem á sér dýrmætan dvalarstað efst í Grímsnesinu þar sem við verjum frítíma okkar. Staðinn köllum við Brekkubæ og þar höfum við reist okkur nokkur lítil hús og kofa á síðustu árum og gert okkur góða aðstöðu til leiks og verka af ýmsu tagi, bæði úti og inni. Húsin eru lítil og útiaðstaðan því mikilvæg í öllu sem við tökum okkur fyrir hendur.

SAGAN OG HUGMYNDIN

Það var árið 2008 að amman og afinn í fjölskyldunni hófu leit að landi til kaups - landi þar sem hægt væri að búa stórfjölskyldunni góðan stað til samveru og sumardvalar þar sem hægt væri að hafa nóg fyrir stafni. Strax í upphafi mótaðist hugmyndin um að á slíku landi væri hægt að byggja smátt og smátt upp nokkur lítil hús en að áherslan yrði á mikla útiveru og góða aðstöðu til leiks og verka, ekki síst utandyra. Þessi hugsjón, ef svo má kalla, hefur haldist óhögguð og fjölskyldan öll sannfærst um að þarna hafi hún hitt naglann á höfuðið. 

Frá árinu 2010 höfum við átt athvarf í Brekkubæ þar sem aðstaðan er farin að bera ríkulegan ávöxt. Þar er góð túnflöt til leikja, lítil gróðrarstöð, róluvöllur með leiktækjum, vinnuskúr með útismíðaaðstöðu, handverkshús með útivinnuaðstöðu og stóru smíðaborði undir þaki. Síðan eru tvö lítil sumarhús fyrir fjölskylduna. Smíðar og handverk af ýmsu tagi er nú stundað í Brekkubæ og þess vandlega gætt að allir fjölskyldumeðlimir, allir ættliðir, geti sinnt sínum hugðarefnum.

HÚSGÖGNIN

Árið eftir að fjölskyldan keypti Brekkubæjarlandið fékk afinn þá hugmynd að koma fyrir bekkjum á vel völdum stöðum á landareigninni. Þetta vakti kátínu hjá sumum en hann sá að það gæti verið gott fyrir hans gamla bak að geta gengið að góðu sæti vísu á móaröltinu, geta tyllt sér niður og notið stundar í náttúrunni. Og þetta var náttúrulega mjög í anda hugsjónarinnar um útiveru frekar en inniveru.

Honum varð þó fljótlega ljóst (eða taldi sér trú um) að hann gæti hvergi keypt þá bekki sem hann sá fyrir sér, heldur þyrfti hann að smíða þá sjálfur. Þeir yrðu að vera þungir og stöðugir og geta staðið á fótunum úti allt árið, án mikils viðhalds, já og geta enst árin sem eftir væru. Og svo mátti þetta heldur ekki kosta mikla fjármuni.

Smíðin hjá gamla manninum gekk öllum vonum framar og nokkrum árum síðar voru bekkirnir orðnir vel á annan tuginn og höfðu margir þeirra fengið samastað í sveitasælu hjá vinum og kunningjum víða um land.

Það var í framhaldi af þessu sem afinn ákvað að koma hugmyndinni um trausta og stöðuga útibekki, staðsetta úti í náttúrunni, betur á framfæri svo fleiri gætu nýtt og notið. Jafnframt sá hann þann möguleika að geta sjálfur kannski haft svolitla atvinnu af því að smíða bekki fyrir þá sem ekki gætu eða kærðu sig um að dunda við það sjálfir.

Síðar fæddust svo hugmyndir fleiri útfærslur í sama anda. Afrakstur þess má nú sjá hér á heimasíðunni og er öllum, sem hafa áhuga á að kynna sér þetta betur, velkomið að líta við og spyrja út í efnisval, málsetningar og hvað eina. Kannski fæðast nýjar hugmyndir sem hægt er að fara með heim í bílskúr og útfæra.

bottom of page